Bandaríski tæknirisinn Apple opnaði fyrir móttöku pantana á iPhone 5C, ódýrarði gerð nýju iPhone-símanna sem kynntir voru í vikunni. Síminn kemur í nokkrum litum og á að verða fáanlegur á föstudag eftir viku. Netmiðillinn CNet segir hins vegar að viðskiptavinir Apple geti orðið fyrir einhverjum vonbrigðum enda hafi birgðastýringin eitthvað klikkað og eftirspurnin meiri eftir sumum símanna en öðrum.

Framleiðslan ku vera með flóknara móti en Apple hefur alla jafna staðið í í gegnum tíðina. Símarnir verða með 16 GB minni og 32 GB minni og verða flestir þeirra sendir út eftir hálfan mánuð. Þeir sem pöntuðu síma í gulum lit fá þá hins vegar ekki afhenta fyrr en viku síðar.

Eins og CNet lýsir iPhone 5C þá verður hann sambærilegur og forverinn iPhone 5 að því undanskildu að hann verður ekki fáanlegur í svörtum lit. iPhone 5S, sem kynntur var á sama tíma í vikunni, mun hins vegar brydda upp á ýmsum nýjungum á borð við bætta myndavélatækni og þess háttar.

Milljarðar hverfa

Svo virðist sem fjárfestar hafi ekki tekið vel í þetta uppátæki hjá Apple að setja ódýrari iPhone á markað. Gengi hlutabréfanna tók dýfu á þriðjudag þegar síminn var kynntur og hefur það fallið um 5,5% síðan þá. Þetta jafngildir því að 34 milljarðar dala af markaðsverðmæti Apple hafi gufað upp. Það jafngildir rúmum 4.100 milljörðum íslenskra króna sem hafa gufað upp á fjórum dögum, samkvæmt útreikningum ValueWalk .