*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Innlent 22. mars 2020 12:05

Eigendur Icelandair þyrftu að taka skell

Ríkisaðstoð verður ekki veitt til „að lina þjáningar eigenda félaga“ samkvæmt fjármálaráðherra.

Ingvar Haraldsson
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Íslensk stjórnvöld munu vart veita Icelandair ríkisstuðning nema hluthafar og lánveitendur félagsins leggi eitthvað til eða sætti sig við tjón. Þetta mátti skilja á orðum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Af tuttugu stærstu hluthöfum Icelandair eiga líffeyrissjóðir samtals hátt í helmingshlut í félaginu en bandaríska fjárfestingafélagið Par Capital Management er stærsti einstaki hluthafinn með 13,71% hlut.

„Icelandair er, ef ekki mikilvægasta félag okkar Íslendinga, þá eitt af þeim mikilvægustu í það minnsta — lífæðin fyrir viðskipti og ferðalög,“ sagði Bjarni.

Félagið standi frammi fyrir gríðarlegum vanda eins og nær önnur flugfélög í heiminum. Stjórnvöld hafi verið í samskiptum við Icelandair en félagið þyrfti að meta stöðuna dag frá degi. „Það er gott til þess að vita að félagið hefur byggt upp mjög sterka lausafjárstöðu til að takast á við þessa tíma.“

Spurður hvort von sé á ríkisstuðningi við Icelandair sagði fjármálaráðherra: „Það er okkar skylda sem erum við stjórnvölinn að tryggja greiðar samgöngur til og frá landinu. Það er frumskylda okkar. Ef að samgöngukerfinu stendur ógna af því sem er að gerast þá munum við bregðast við“.

Skattpeningar ekki til að lina þjáningar eigenda

Bjarni sagði takmarkað hve miklar vangaveltur hann geti verið með um kosti í stöðunni þar sem félagið er skráð á markað. „En almennt séð er ég þeirrar skoðunar að við setjum ekki peninga skattgreiðenda til að lina þjáningar eigenda félaganna eða þeirra sem eiga kröfu á slík félög,“ sagði hann.

„Það gengur til dæmis ekki að við setjum háar fjárhæðir úr ríkissjóði og þeir sem eiga hagsmuni að félaginu sitji bara uppi án tjóns.“

Flugsamgöngur gætu lagst af um mánaðamótin

Flugsamgöngur eru við það að leggjast af næstu vikur. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gaf út í gær að um næstu mánaðamót gætu allar flugleiðir til Íslands lokast. Hann hvatti Íslendinga því til að huga að því að flýta heimferð ætli þeir sér til Íslands. Í dag og á morgun flýgur Icelandair á 15-25% af upphaflegri flugáætlun sinni miðað við komur og brottfarir á vef Isavia.