Síldarvinnslan á Neskaupsstað hagnaðist um sjö milljarða króna í fyrra. Til samanburðar nam hagnaðurinn rúmum 4,8 milljörðum króna árið 2011.

Fram kemur í uppgjöri Síldarvinnslunnar að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam tæpum 9,7 milljörðum króna samanborið við tæpa 7,2 milljarða króna árið á undan. Rekstrartekjur samstæðu Síldarvinnslunnar námu samtals 24 milljörðum króna og rekstrar námu 14,3 milljörðum króna. Heildareignir Síldarvinnslunnar voru bókfærðar um síðustu áramót á 36,9 milljarða króna. Eigið féð nam 21,9 milljörðum króna.

Þá kemur fram í uppgjörinu að Síldarvinnslan greiddi 1,6 milljarða króna í tekjuskatt, en 650 milljónir króna í önnur opinber gjöld. Þá námu veiðigjöld 850 milljónum króna á síðasta fiskveiðiári.

Greiða tvo milljarða í arð

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar í gær að samþykkt var tillaga stjórnar Síldarvinnslunnar að hluthöfum verði greiddur 30% arður af hagnaði útgerðarinnar. Það jafngildir tæpum 2,1 milljarði króna. Upphæðin er 700 milljónum minna en sem nemur öllum launagreiðslum Síldarvinnslunnar í fyrra. Hjá félaginu unnu 230 manns til sjós og lands. Launagreiðslur til þeirra námu samtals 2,8 milljörðum króna. Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með um 45% hlut.