Eigendur þýska ríkisbankans WestLB, sem er með höfuðstöðvar í Düsseldorf, hyggjast setja allt að 2 milljarða evra inn í bankann til að standa straum af annars vegar væntanlegu tapi upp á einn milljarð evra á nýliðnu ári og hins vegar afskriftum sem búist er við að verði jafnframt um einn milljarður evra. Tilkynning WestLB þess efnis var send í kjölfarið á krísufundi sem haldinn var á sunnudagskvöldið, þar sem meðal annars Axel Weber, forseti þýska seðlabankans, mætti.

WestLB, sem er í meirihlutaeign sparsjóðanna, hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna lausafjárkreppunnar sem herjað hefur á fjármálamarkaði frá því í sumar. Fram kemur í frétt í Financial Times að bankinn ætli af þeim sökum að ráðast í frekari hagræðingu í rekstri bankans en áður hafði verið boðað. Jafnframt sagðist WestLB ætla að leita eftir því að taka upp samrunaviðræður við Helaba, helsta samkeppnisaðila bankans, sem er með höfuðstöðvar í Frankfurt.

Forsvarsmenn WestLB hafa enn ekki útlistað nákvæmlega í hverju hagræðingaráform bankans muni felast. Í þýskum fjölmiðlum hefur hins vegar komið fram að um tvö þúsund manns gætu misst vinnuna, en samtals starfa um 5900 manns hjá bankanum. Í desember sl. greindi WestLB frá því að tap bankans á fyrstu níu mánuðum ársins hefði numið 116 milljónum evra, borið saman við hagnað upp á 297 milljónir evra á sama tímabili árið 2006.

Á sama tíma í gær tilkynnti LBBW, stærsti ríkisbanki Þýskalands, að hagnaður bankans á síðasta ári myndi nema að minnsta kosti 300 milljónum evra, þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem ríkt hafa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.