Eignir fjórmenninganna sem sérstakur saksóknari hefur ákært fyrir brot á gjaldeyrislögum í tengslum við umfangsmikil viðskipti hafa verið kyrrsettar í tvígang. Fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins af málinu í dag að í Í fyrra skiptið hafi það verið gert í byrjun árs 2010 þegar rannsókn málsins hófst. Hæstiréttur aflétti henni í fyrra á þeim rökum að rannóknin hafi dregist úr hófi fram þannig að það bryti gegn stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála  Evrópu að svipta þá  forræði yfir eignum sínum lengur. Eftir afléttingu kyrrsetningarinnar fór málið til sérstaks saksóknara og því hraðað. Þegar ákæra var gefin út á hendur fjórmenningunum á nýjan leik 22. mars síðastliðinn og eignir þeirra kyrrsettar öðru sinni.

Fram kemur í blaðinu að óvíst sé hvað hafi orðið um megnið af hagnaði fjórmenninganna af gjaldeyrisviðskiptunum og virðist lítill hluti peninganna hafa verið fluttur til Íslands. Fréttablaðið segir saksóknara telja að meirihluta hagnaðarins hafi verið komið undan erlendis, að minnsta kosti hafi fjórmenningarnir gert ráðstafanir til þess að koma peningum í aflandsfélög og þeir stofnað félag á Kýpur í því skyni. Samkvæmt ákærunni er þeim gefið að sök að hafa staðið í ólöglegum viðskiptum með gjaldeyri fyrir rúma 14 milljarða króna og hagnast um 656 milljónir króna.

Þá segir í umfjöllun Fréttablaðsins að inn á bankareikninga fjórmenninganna runnu eftirfarandi upphæðir: Markús Máni Michaelsson fékk 53,6 milljónir, Ólafur Sigmundsson 10,6 milljónir, Karl Löve Jóhannsson 45,7 milljónir og Gísli Reynisson 35,2 milljónir. Ekki er vitað nákvæmlega hvað varð um þessa peninga heldur.