Hlutabréfaverð Eimskips hefur lækkað um rúm 11% í fyrstu viðskiptum dagsins. Veltan með bréfin er þó ekki mikil eða einungis um 18 milljónir króna. Lækkunin kemur í kjölfarið á afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér eftir lokun markaða síðastliðinn föstudag. Lækkaði félagið EBITDA spá sína úr 57-63 milljónum evra í 49-53 miljónir evra.

Helstu ástæður fyrir lakari afkomu voru meðal annars sagðar samdráttur á Noregsmarkaði auk þess sem bilanir á frystiskipum hafi haft töluverð áhrif á reksturinn þar. Þar að auki hafi innflutningur til Íslands verið minni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Gengi hlutabréfafélagsins hafa nú lækkað um rúmlega 17% það sem af er þessu ári. Þá hafa þau lækkað um 21,5% frá því Samherji Holding ehf. festi kaup á 25,3% hlut í félaginu í júlí síðastliðnum.