Eimskip lagði fram tilboð í B hluta útboðs Ríkiskaupa, í smíði og rekstur á nýrri Vestmannaeyjaferju. Í tilkynningu frá Eimskipum kemur fram að: „Tilboðin gera ráð fyrir að Eimskip smíði nýja ferju sem yrði afhent um mitt ár 2018 og myndi félagið sjá um rekstur og þjónustu ferjunnar allt til ársins 2030. Heildartilboð Eimskip í að smíða nýja ferju og sjá um rekstur hennar í 12 ár liggur á bilinu 8,1 – 9,4  milljarðar króna.“

Eimskip hefur unnið tilboðið með sérfræðingum og í samstarfi við erlendar skipastöðvar.

Einnig kom fram í tilkynningunni að: „ Eimskip leggur ekki fram tilboð í A hluta útboðsins sem snýr að því að smíða nýtt skip og selja til ríkisins. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort ríkið tekur tilboðum í A-hluta eða B-hluta. Ef A hluti verður fyrir valinu og ríkið semur beint við skipasmíðastöð má búast við að reksturinn verði boðinn út síðar.“

Ríkiskaup vegur og metur

Ríkiskaup hefur nú 18 vikur til að meta innsend tilboð og því hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort að tilboðinu verði tekið. Málið er því í höndum ríkisins.

Í yfirlýsingu segir Gylfi Sigfússon, forstjóra Eimskips, að Eimskip hafi nú þegar séð um rekstur á Herjólfi frá árinu 2006. Því hefur félagið góða þekkingu á rekstrinum og telur hann að Eimskip sé því vel til þess fallið að smíða nýtt skip.