Þó mannskepnan hafi eitt sinn klæðst skinntutlum einum saman hafa loðfeldir lengi verið merki um þjóðfélagsstöðu og ríkidæmi. Munaðarvörur sem slíkar, sem búnar eru til úr sjaldgæfum skinnum og efnum - og kosta sitthvað - seljast oft vel á góðæristímum. Þannig jókst sala á loðfóðruðum flíkum og skinnum þó nokkuð hér á landi árin 2007 og 2008, samanborið við venjulegt árferði. Undanfarin ár hafa loðfeldir og skinnvörur þó átt undir högg að sækja víða um heim, meðal annars vegna siðferðis- og dýraverndunarsjónarmiða. Íslenskir feldskerar segja sínar vörur hins vegar seljast ágætlega, þó enginn góðærisbragur sé á sölunni.

Allt í eðlilegum gír

„Við finnum ekkert fyrir góðæri þannig séð. Það er enginn sérstakur 2007-bragur yfir þessu, en í kringum þann tíma var salan meiri en venjulega,“ segir Karl Steingrímsson, betur þekktur sem Kalli í Pelsinum.

Verslunin Pelsinn er til húsa í „svörtu perlunni“ svokölluðu við Tryggvagötu 18, en Pelsinn hefur verið í rekstri frá árinu 1976. Í versluninni eru seldir pelsar, jakkar og annar kvenfatnaður.

„Salan þetta árið er svipuð og hún hefur verið undanfarin ár. Við höfum rekið Pelsinn í 40 ár og þetta gengur vel. Þetta er stabílt og allt í eðlilegum gír,“ segir Karl. Hann segist ekki hafa orðið var við verulega breytingu á samsetningu viðskiptavinahóps verslunarinnar með gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi undanfarin ár.

Karlar versla meira en áður

„Það er ekkert 2007 í gangi,“ svarar Eggert Jóhannsson feldskeri þegar hann er spurður hvort hann finni fyrir hinu margumtalaða góðæri sem nú er í gangi. Eggert hefur rekið feldskeraverkstæði sitt frá árinu 1977 og fagnaði hann því 40 ára rekstrarafmæli í ár. Í verslun hans við Skólavörðustíg er að finna loðfóðraðar yfirhafnir, kraga, húfur og fleira úr minkaskinni, lambaskinni, selskinni og fiskroði. Einnig er hægt að fá sérsaumaðar flíkur og tekur Eggert einnig við pöntunum frá útlöndum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Innlendir sælgætisframleiðendur seldu fyrir 6,4 milljarða í fyrra
  • Hækkun lífeyristökualdurs hefur verið slegið á frest
  • Kjaradeila Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair er komin til ríkissáttasemjara
  • Kampavínsvísitalan hækkar í góðærinu
  • Þyngra hljóð er í fjármálastjórum en þeim fjölgar sem telja líklegra að afkoman versni
  • Ítarlegt viðtal við Egil Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóra Forlagsins
  • Tímaritið Nordic Style Magazine landaði samningi við stærsta bóksala í Bandaríkjunum
  • Gunnar Bjarni Viðarsson notar gervigreind við greiningu í nýju starfi
  • Sendiherra ESB á Íslandi skrifar um framtíð frjálsrar verslunar í aðsendri grein
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem er á móti því að börn fái kosningarétt