*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 8. febrúar 2013 10:04

Ekki óskastaða að Amgen eigi Decode

Kári Stefánsson óskar þess að Decode verði að einhverju leyti í eigu Íslendinga. Hann segir marga geta tekið við kyndlinum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Decode, segir það ekki óskastöðu að vera í eigu bandarísks lyfjaþróunarfyrirtækis. Hann segir í samtali við DV í dag að í lok síðasta árs hafi Decode verið búið með það fjármagn sem lagt var inn í reksturinn árið 2010 og vantaði meira fé. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um fjárhagsstöðu Decode í nóvember á síðasta ári og sagði félagið aðeins eiga rekstrarfé fram á fyrsta ársfjórðung 2013 eins og fram kom í ársreikningi fyrirtækisins. 10. desember var svo tilkynnt um kaup bandaríska fyrirtækisins Amgen á rekstri Decode.

„Ég held að Decode eigi fyrst og fremst, þegar fram í sækir, að vera lyftistöng fyrir íslensk vísindi, en ekki pollur fyrir erlend fyrirtæki til að dorga í. Auðvitað er þetta ekki óskastaðan en „there are no free lunches“. En eins og stendur í dag þá er þetta eina leiðin sem við höfum til fjármagna fyrirtækið. Ef þú horfir til þess sem er að gerast í heiminum í dag þá er þetta alveg gífurlega góð staða fyrir okkur en ekki draumastaða,“ segir hann.

Vill að Decode verði í íslenskri eigu

Spurður að því hver draumastaðan sé nefnir hann þann möguleika að Decode verði aftur að einhverju leyti eign íslensks samfélags.

„Draumastaðan væri sú að Decode væri alfarið í eigu íslensks samfélags og algjörlega óháð fjármagni sem kemur að utan.

Er ekki að hætta

Í viðtalinu er Kári sömuleiðis spurður að því hvort hann sé að undirbúa brottför frá Decode og hvað hann telji að verði um Decode eftir hans dag. Bent er á að Kári er 64 ára og andlit Decode út á við auk þess að vera aðalhöfundur allra þeirra vísindagreina sem skrifaðar hafa verið á vegum fyrirtækisins og séð um endurfjármögnun rekstrarins.

Kári segir:

„Mér finnst nú dálítið kuldalegt af blaðamanni að vera að tala um endalok mín. [...] „Það er alveg ofboðslega mikið af góðu fólki hérna inni. Alveg feikilega gott fólk og óvanaleg samsetning af fólki. Ég er mjög montinn af þessu fólki. Auðvitað hef ég alltaf áhyggjur af framtíð þessa fyrirtækis en það er einn af veikleikum mannsins að halda að hann sé ómissandi. En hvorki ég, né nokkur annar hér innanhúss, er ómissandi. Það er fullt af góðu fólki sem getur tekið við kyndlinum og barist áfram og þetta fólk hefur verið að berjast með mér í þessu frá upphafi. Þannig að mér líður tiltölulega vel með þetta en ég hef verið að hugsa töluvert um það hvernig eigi að setja saman einhvers konar plan um að þjálfa einhvern til að taka við af mér þegar ég hætti,“ segir hann.

Kári heldur áfram:.

„Mannaskipti á svona vinnustað eiga sér stað á nákvæmlega sama hátt og annars staðar: Menn koma og menn fara og hér geta ýmsir tekið við kyndlinum af mér. Þetta er ekki eitt af því sem við höfum hundsað, við höfum velt þessu fyrir okkur, þó það standi ekkert til að ég gangi hér út og hengi mig.“

Stikkorð: Kári Stefánsson Amgen Decode