Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í morgun að Rússar muni þurfa að taka efnahagslegum og pólítískum afleiðingum ef þeir taka ekki þátt í viðræðum sem geti leitt til jákvæðra niðurstaðna vegna ástandsins í Úkraínu. Í ræðu í þýska þinginu sagði Merkel að eina leiðin til að fást við ástandið væri með diplómatískum lausnum. Hernaðaríhlutun væri ekki valmöguleiki.

Hún bætti því við að Evrópusambandið og aðrar vestrænar þjóðir myndu brátt taka upp á því að frysta bankainnistæður og skerða ferðafrelsi ef Rússar neituðu að taka þátt í viðræðum sem myndu leiða til lausna.

Í gærkvöldi hitti Barack Obama forseti Bandaríkjanna forsætisráðherra Úkraínu og hét honum stuðningi.