Elsti stjórnarmaður Bandaríkjanna, Mortimer Caplin, hefur hætt störfum í stjórn fyrirtækisins Danaher Corp 96 ára að aldri. Hann er þó ekki hættur að vinna, því hann segir í samtali við Bloomberg að hann ætli að einbeita sér að skattalögfræði og störfum sínum fyrir Virginíuháskóla.

Hann segist ennþá mæta í vinnuna á hverjum degi þrátt fyrir háan aldur og þá syndir hann á hverjum degi sér til heilsubótar.

Caplin hefur setið í stjórn Danaher frá árinu 1990, en í fyrra greindi Bloomberg frá því að hann væri elsti stjórnarmaður í fyrirtæki sem skráð væri í Standard & Poor's hlutabréfavísitöluna.

Caplin segir að hann hafi aldrei talið aldur skipta miklu máli. Geta og vilji skipti meira máli. Eins og gefur að skilja hefur Caplin víða komið við á löngum ferli, en hann var til dæmis í starfshópi John F. Kennedy, Bandaríkjaforseta, um skattamálefni. Þá skipaði Kennedy hann yfirmann skattstjóraembættis bandaríska alríkisins árið 1961.