„Það er verið að stilla upp ýmsum hugmyndum en það eru ekki komnar endanlegar fjárhæðir," segir Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, þegar hann er spurður út í frétt Financial Times.

Þar er fullyrt að íslensk stjórnvöld ætli að óska eftir því að fá sex milljarða dala lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og seðlabönkum annarra ríkja.

Fulltrúar frá IMF hafa verið hér á landi síðustu vikur og hafa stjórnvöld boðað að ákvörðun um aðstoð frá sjóðnum muni liggja fyrir von bráðar.

Skilyrði lánveitingar er að íslensk stjórnvöld og IMF komi sér saman um trúverðuga efnahagsáætlun til að koma Íslandi úr þeim þrengingum sem nú steðja að.

Jón Þór vill aðspurður í samtali við Viðskiptablaðið ekki gefa upp neinar fjárhæðir sem nefndar hafa verið. Hann vill heldur ekkert segja um það hvort ráðgert sé að Japanir láni Íslendingum.

IMF hefur ekki sett nein skilyrði um innlánin

Jón þór vill þó árétta eftirfarandi: „Orðrómur um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji þau skilyrði að innlán hér verði ekki tryggð nema upp að þremur milljónum er fjarstæða. Engin slík skilyrði hafa verið lögð fram."