Á fyrstu sex mánuðum ársins var tap Farice ehf. fyrir fjárhagsliði 3,2 milljónir króna samanborið við 3,3 milljóna tap á sama tíma í fyrra. Rekstrartekjur voru 3,5 milljónir króna samanborið við 3,3 milljónir á fyrstu sex mánuðum síðsta árs. Þá var rekstrar- og stjórnunarkostnaður 2,8 milljónir á tímabilinu samanborið við 2,7 milljónir á sama tíma í fyrra. Farice á og rekur tvo sæstrengi.

Fjárhagslegri endurskipulagningu Farice ehf. er nú lokið. Á hluthafafundum í mars og maí 2011 var samþykkt að auka hlutafé félagsins um 8 milljónir evra, sem íslenska ríkið og Landsvirkjun hafa skráð sig fyrir. Greiðslu aukins hlutafjár verður lokið í byrjun september, og verður hlutafé félagsins þá 83,5 milljónir evra, og eiginfjárhlutfall verður 50,3%.

Endurskipulagður fjárhagur Farice ehf á að tryggja að félagið geti staðið undir þeim rekstri sem áætlaður er næstu árin. Tekjur félagsins eru annars vegar af viðskiptasamningum við almenn fjarskiptafélög og hins vegar af samningum við gagnaveraiðnaðinn. Árleg aukning fjarskiptaumferðar almennra fjarskiptafélaga er veruleg, en í áætlunum félagsins er þó gert ráð fyrir að meginvöxturinn verði á sviði þjónustu við gagnaver og skyldan iðnað. Þá skipta nýir samningar við lánardrottna um endurgreiðslur langtímalána afar miklu máli hvað varðar framtíð Farice ehf.