„Veruleg breyting hefur orðið á sambandi verðbólguvæntinga við skammtímaþróun verðbólgu. Þróun verðbólguvæntinga undanfarið ár endurspeglar aukna trú á því að Seðlabankinn geti sinnt því lögbundna hlutverki sínu að halda verðbólgu nærri 2,5% að jafnaði.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka frá því morgun þar sem fjallað er um verðbólguvæntingar í samfélaginu og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Vísað er til nýlegrar samantektar Seðlabankans á þróun verðbólguvæntinga heimila, fyrirtækja og markaðsaðila á fjármálamarkaði, sem og þróun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði.

„Samanlagt gefa þessir mælikvarðar allskýra mynd af því hvernig fólk og fyrirtæki býst við því að verðbólga þróist næsta kastið. Þessar væntingar ráða svo miklu um það hvernig þróunin verður í raun og veru.“

Þróun allra þessara mælikvarða eru á einn veg að mati Greiningar Íslandsbanka:

„Þessi trú fólks og fyrirtækja í landinu á því að verðbólga verði skapleg næstu árin er Seðlabankanum afar mikilvægt veganesti í þeirri viðleitni sinni að mýkja hagsveifluna eftir ágjöf í ferðaþjónustu fyrr á árinu. Bankinn þarf því ekki að standa í ströngu við að endurheimta trúverðugleika sinn með tiltölulega háum raunvöxtum eftir verðbólguskotið í vetur heldur getur hann slakað á klónni í takti við vaxandi slaka á vinnumarkaði og í efnahagslífinu í heild.  Þetta er mikilvæg breyting til batnaðar í hagstjórn á Íslandi sem vonandi er komin til að vera.“