Viðræður á milli Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Indlands og Brasilíu um hvort að hægt sé að endurvekja Doha-viðræður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) runnu út í sandinn í gær. Sendinefndir Indlands og Brasilíu slitu fundinum og sagði utanríkisráðherra síðarnefnda landsins, Celso Anorim, þar hafa verið tilgangslausar. Eins og áður var steytti á ólíkum áherslum varðandi niðurgreiðslu landbúnaðarvara. Haft var eftir Susan Schwab, viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna, að vissulega væri það vonbrigði að fundarhöldin hafi farið út um þúfur en ítrekaði að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki gefist upp á þeirri viðleitni að endurvekja Doha-viðræðurnar.

Viðræðurnar hófust í þýska bænum Potzdam á þriðjudag og áttu að standa fram til morgundagsins. Samkomulag milli þessara fjögurra ríkja er talið forsenda þess að hægt sé að endurvekja Doha-viðræðurnar sem snúast meðal annars um lækkanir á tollum á landbúnaðar- og iðnaðarvörum. Tekist er á um niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum og hversu opnaðir markaðir fyrir þessar vörur eigi að vera. Þróunarríki, eins og Brasilía og Indland, vilja að ríku löndin minnki eða láti af niðurgreiðslum til landbúnaðar og jafni þar með samkeppnisstöðuna. Á sama tíma þrýsta Evrópusambandið og Bandaríkin á aukið aðgengi að mörkuðum í þriðja í heiminum, sérstaklega þegar kemur að iðnaðar- og þjónustuvörum.