*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 13. mars 2020 15:31

„Engin ástæða til að hamstra vörur“

Formaður FA segir engar hindranir á innflutningi til landsins og nægar birgðir. Fólki skipt í einangraðar vaktir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir enga ástæðu til að hamstra vörur í verslunum. Innflytjendur hafi pantað meira en venjulega af æskilegum birgðavörum í inflúensufaraldri að sögn Félags atvinnurekenda.

Hagar hafa einnig sent frá sér yfirlýsingu um að engin þörf sé á því að heimilin standi í birgðasöfnun, en félagið segist hafa fundið fyrir því upp á síðkastið í verslunum Bónus og Hagkaups.

Félag atvinnurekenda segir engar fréttir hafa borist af því að vöruflutningar til landsins hafi raskast vegna útbreiðslu kórónuveirunnar Covid-19, sem talin er eiga uppruna sinn í Wuhan borg í Kína. Samkomubann stjórnvalda tekur gildi eftir helgi í tilefni af útbreiðslu kórónaveirunnar en heyrst hafa fréttir af aukinni umferð í dag í sumar verslanir.

Samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur aflað sér hjá félagsmönnum sínum sem eru í innflutningi á mat- og dagvöru eru engar hindranir á innflutningi til landsins og nægar birgðir til. Félagið segir að mörg aðildarfélög þessi hafi fengið upplýsingar frá erlendum birgjum sínum um ráðstafanir sem þeir hafa gripið til í því skyni að tryggja órofinn rekstur.

Flest stærri og meðalstór fyrirtæki í matvöruinnflutningi og -dreifingu hafa gripið til sambærilegra ráðstafana, eins og að skipta starfsfólki á vaktir þar sem enginn samgangur er á milli, einangra starfsstöðvar hverja frá annarri o.s.frv. Ýmsir innflytjendur hafa pantað meira en venjulega af þeim vörum sem eru á lista almannavarna yfir æskilegt birgðahald heimila í inflúensufaraldri.

„Innflutningur og birgðastaða á nauðsynjavörum er með eðlilegum hætti og að svo stöddu engin ástæða til að hamstra vörur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA á vef félagsins.

Úr yfirlýsingu Hagkaupa. Ath fréttin hefur verið uppfærð:

Hagar hafa nú þegar haft samráð við innlenda og erlenda birgja og metið stöðuna m.t.t. þess ástands sem við stöndum nú frammi fyrir. Um 70% af matvörukörfunni er íslensk framleiðsla og þar er ekki skortur á vörum. Að sama skapi er hvorki nú, né fyrirsjáanlegur skortur á innfluttum vörum, hvort sem um er að ræða ávexti, grænmeti, hreinlætisvörur, þurrvörur eða matvöru með langt geymsluþol. Sömuleiðis er birgðastaða á eldsneyti á Olís og ÓB-stöðvum góð.

Hvað varðar yfirvofandi samkomubann sem mun hefjast aðfaranótt mánudags, biðlum við til viðskiptavina að hafa í huga að vöruskortur er ekki yfirvofandi. Ekki er þörf á birgðasöfnun þar sem verslanir Bónus og Hagkaups verða enn sem áður opnar almenningi þótt grípa verði til aðgangsstýringar inn í verslanir á álagstímum þegar samkomubann verður komið á. Við munum fara vel yfir tilhögun þessarar stýringar áður en til hennar kemur og upplýsa um það fyrirkomulag sem fyrst.

Við leggjum áherslu á að huga að öryggi og heilsu viðskiptavina okkar og starfsfólks. Því biðlum við til allra viðkomandi að huga vel að handþvotti og almennu hreinlæti í samræmi við útgefnar leiðbeiningar. Við beinum því einnig til viðskiptavina að huga að almennum handþvotti og á sótthreinsispritt að vera til staðar við inngang og útgang allra verslana, auk einnota hanska innan þeirra. Við hvetjum viðskiptavini til að nýta sér þá valkosti og einnig hefur verið vel tekið á þrifum á helstu snertiflötum innan verslana og bensínstöðva.

Forsvarsmenn Haga hafa verið í sambandi við Almannavarnir, sóttvarnarlækni og landlækni ásamt öðrum stofnunum og munu fylgja þeirra ráðleggingum og leiðbeiningum til hlítar með heildarhagsmuni almennings að leiðarljósi.

Að lokum viljum við hrósa og þakka stjórnvöldum, Almannavörnum, sóttvarnarlækni, landlækni og fjölmiðlum fyrir að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að taka vel á þessu fordæmalausa ástandi og veita stöðugt skilvirkar og haldgóðar upplýsingar og leiðbeiningar.