Fjórir stjórnarmenn mynda nú stjórn HB Granda eftir að Rannveig Rist, varaformaður stjórnarinnar, sagði sig úr henni . Ástæðu úrsagnarinnar segir Rannveig vera ósætti við uppsögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, fyrrverandi forstjóra HB Granda, og hvernig að henni var staðið.

Boða þarf til hluthafafundar til að kjósa nýjan stjórnarmann. Hluthafar með samanlagt 5% eignarhlut geta samkvæmt samþykktum félagsins farið fram á að hluthafafundur verði haldinn. Brim, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi eiga 5% eða meira í félaginu.

Þó er engin lagaskylda fyrir hendi þess efnis að fylla þurfi í skarð Rannveigar fyrr en á næsta aðalfundi félagsins þar sem stjórnin er ákvörðunarbær með þeim stjórnarmönnum sem eftir eru.