Yfirlýsing Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra og fyrrv. formanns Samfylkingarinnar, í áramótatímariti Viðskiptablaðsins var töluvert rædd á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar þann 30. des.sl. Fundurinn var þó boðaður í öðrum tilgangi, þar átti að fjalla um breytingar á ríkisstjórninni en daginn eftir, á gamlársdag, var Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, settur út úr ríkisstjórn ásamt Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í viðtali við Viðskiptablaðið lýsti Össur því yfir að Samfylkingin þyrfti að endurnýja bæði forystu og hugmyndafræði flokksins fyrir næstu kosningar. Óhætt er að segja að þessi yfirlýsing hafi varpað sprengju inn í Samfylkinguna enda ekki á hverjum degi sem utanríkisráðherra lýsir yfir óbeinu vantrausti á starfandi forsætisráðherra og formann eigin flokks.

Það sem hins vegar vekur athygli er að enginn innan Samfylkingarinnar hefur stigið fram og mótmælt þessari yfirlýsingu Össurar, hvorki fyrir umræddan flokksstjórnarfund né núna, viku síðar.

Hluti fundarmanna bar upp tillögu á fundinum um að haldinn yrði landsfundur nú í vor (í stað þess að halda landsfund rétt fyrir kosningar á næsta ári). Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu, ítrekaði þó á móti að ekki yrði kosið um nýja forystu á fundinum þar sem um svokallaðan aukalandsfund væri að ræða. Þetta ítrekaði Jóhanna sjálf í þættinum Kryddsíld á Stöð 2 á gamlársdag. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins snerist tillagan þó um að halda „alvöru“ landsfund þar sem kosið yrði um nýja forystu flokksins. Líklegt þykir að landsfundur verði haldinn í haust en málið er í höndum framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.

Nánar er fjallað um breytingarnar á ríkisstjórninni, stöðu Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra og fleira sem tengist stjórnarflokkunum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf útgáfu undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
© BIG (VB MYND/BIG)

Þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon vörðu miklum tíma á aðventunni í að undirbúa breytingar á ríkisstjórninni, þeirri fjórðu frá því að ríkisstjórnin tók við völdum í febrúar 2009. Eftir breytingarnar hefur Steingrímur sterk tök á sínum flokki á meðan staða Jóhönnu sem formanns hefur veikst til muna.