Þrátt fyrir mikla og óvænta hækkun verðbólgu hér á landi í janúar gera greiningar- og markaðsaðilar enn ráð fyrir stöðugri eða hjaðnandi verðbólgu á árinu.

12 mánaða verðbólga hækkaði um 0,6 prósentustig í janúar og nam 5,7%, þvert á spár greiningaraðila sem allir gerðu ráð fyrir hóflegri hjöðnun.

Húsnæðisliðurinn vó þar hvað mest, en reiknuð húsaleiga hækkaði um tæp 15% í stað 0,4% í spá Landsbankans, og vegur 16% af vísitölunni í heild. Eftir því sem líður á árið er því þó enn spáð að hækkandi stýrivextir rói markaðinn. Bensín og olíur, sem vega 3%, hækkuðu einnig um 18% í stað 0,2% lækkunar í sömu spá.

Þrýstingurinn slaknar um mitt ár
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir tölurnar vissulega hafa komið á óvart, enda allar spár verið samhljóða „og allar jafn rangar“.

„Ég held að við verðum svolítið að horfast í augu við það að verðþrýstingurinn frá innfluttum vörum er umtalsverður, að minnsta kosti til skemmri tíma,“ segir Jón Bjarki.

Hann segist ekki geta sagt til um hversu langvinnur þessi tiltekni verðbólguþrýstingur geti orðið á þessu stigi, en eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst gera erlendir greiningaraðilar nú ráð fyrir að hækkanir á hrávöruog flutningsmörkuðum fari að ganga til baka um mitt ár.

Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans – sem gjarnan hefur spáð ívið meiri verðbólgu en greiningardeildir bankanna síðustu misseri – bendir á að þrátt fyrir nýlegar hækkanir séu raunstýrivextir enn vel neikvæðir og taumhald peningastefnunnar því lítið, auk þess sem verulegur halli sé enn á rekstri ríkissjóðs. Hann segir framhaldið velta að miklu leyti á viðbrögðum seðlabankans, en gerir enn ráð fyrir að verðbólga verði um 5% út árið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .