Úrvalsvísitala OMXI10 lækkaði um 0,83% í viðskiptum dagsins og stendur í 2.082 punktum. Heildarviðskipti dagsins námu 1,2 milljarði króna en mest velta var með bréf Skeljungs, fyrir 242 milljónir króna.

Fasteignafélögin þrjú; Reginn, Reitir og Eik lækkuðu öll annan daginn í röð. Reginn lækkaði mest allra félaga eða um 1,99% og kostar hvert bréf núna 14,8 krónur og hafa þau aldrei verið lægri á þessu ári.

Reitir lækkaði næst mest allra félaga eða um 1,82% og kostar hvert bréf 45,95 krónur. Hlutabréf félagsins hafa aldrei verið lægri. Þriðja mesta lækkun var á bréfum Eikar, um 1,44% og standa þau í 6,15 krónum hvert. Þau hafa einu sinni verið jafn lág sem var í apríl fyrr á árinu.

V/I hlutfall (e. P/B) fasteignafélaganna liggur nú á milli 0,59 og 0,68 og er markaðsvirði þeirra því verulega undir bókfærðu virði eiginfjár.

Mest hækkuðu hlutabréf Icelandair, um 3,48% í átta milljóna króna viðskiptum og standa þau nú í 1,19 krónum hvert. Hlutabréf félagsins í komandi hlutafjárútboði mun kosta eina krónu. Næst mest hækkuðu bréf Sjóvá, um 1,5% í 150 milljóna króna viðskiptum en félagið birti árshlutauppgjör í gær. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um 7,2% það sem af er ári.