Sjóvá hagnaðist um 1.538 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2020 samanborið við 1.548 milljónir á sama tímabili fyrra árs. Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 1.466 milljónum á fjórðungnum en 1.043 milljónum á sama tíma árið 2019. Hagnaður af vátryggingarstarfsemi nam 213 milljónum en 718 milljónum árið áður. Frá þessu er greint í árshlutauppgjöri félagsins.

Heildartekjur félagsins drógust um 6% á öðrum ársfjórðungi milli ára og munar þar mest um iðgjöld félagsins sem námu 4.539 milljónum og drógust saman um nær 700 milljónir. Tjón dróst saman um 300 milljónir milli ára.

Félagið hagnaðist um 1.072 milljónir króna á fyrri árshelmingi samanborið við 2.601 milljón á sama tímabili fyrra árs sem er 59% samdráttur milli ára. Hagnaður af vátryggingarstarfsemi dróst saman um nær 850 milljónir, úr 1.231 milljón í 398 milljónir. Hagnaður af fjárfestingastarfsemi á fyrra hlut ársins 2020 nam 914 milljónum en 1.702 á fyrra ári. Ávöxtun fjárfestingarsafns nam 4,6% en 7,9% á sama tímabili 2019.

Samsett hlutfall félagsins var 96,8% á öðrum ársfjórðungi 2020 en 89% á sama tíma árið 2019. Það stendur í 97,7% það sem af er ári. Fjárfestingatekjur félagsins námu 1.854 milljónum á öðrum ársfjórðungi og jukust um rúmlega 300 milljónir milli ára. Aukninguna má skýra vegna hækkunar á gangvirðisbreytingum fjáreigna.

Heildareignir félagsins námu 56,7 milljörðum króna í lok fyrra hluta árs. Eigið fé nam 17,1 milljarði og skuldir 39,5 milljörðum. Þar af er 31,5 milljarður vátryggingarskuld.

Fjárfestafundur félagsins hefst klukkan 16:15 á eftir og verður streymt á heimasíðu félagsins en má einnig sjá hér að neðan.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá:

„Grunnreksturinn er sterkur og skilar nú jákvæðri afkomu átjánda fjórðunginn í röð með samsett hlutfall upp á 96,8%. Sterkur grunnrekstur til lengri tíma gerði okkur kleift að bregðast við þeim mikla samdrætti sem varð á umferð þegar samkomubann tók gildi á landinu í mars sl. og fella niður iðgjöld bifreiðatrygginga einstaklinga í maí. Lækkun iðgjalda vegna þessarar ráðstöfunar nemur um 650 m.kr. og kom að fullu fram á öðrum ársfjórðungi.

Aðgerðin vakti ánægju viðskiptavina og við finnum fyrir miklum meðbyr vegna hennar. Síðastliðna 12 mánuði hafa viðskiptavinir Sjóvá fengið samtals um 1.300 m.kr. greiddar í formi niðurfellingar maí gjalddagans og/eða vegna tjónleysis. Iðgjöld fjórðungsins dragast saman um 13% frá sama fjórðungi í fyrra og skýrist nær eingöngu af niðurfellingu maí gjalddaga ökutækjatrygginga.

Að öðru leyti vegur iðgjaldavöxtur á einstaklingsmarkaði á fjórðungnum upp á móti samdrætti í iðgjöldum fyrirtækja og þá aðallega hjá fyrirtækjum sem starfa innan ferðaþjónustunnar. Unnið hefur verið náið með þessum fyrirtækjum, líkt og öllum okkar viðskiptavinum sem á þurfa að halda, með góðum árangri.“

Hér að neðan má sjá fjárfestakynningu Sjóvá.