Velta Porsche á fjárhagsárinu, sem lauk í lok júní, nam 8,6 milljörðum evra, eftir því sem þýska vikuritið Der Spiegel greinir frá. Hagnaður af bílaframleiðslunni nam 1,1 milljarði evra en heildarhagnaður fyrirtækisins nam hins vegar hvorki meira né minna en 11 milljörðum evra. Mesti hagnaðurinn er þannig ótengdur bílaframleiðslu og helgast að stærstum hluta af endurmati á 31% hlut í VW.

Porsche hefði með öðrum orðum getað gefið frá sér hvern einasta bíl sem fyrirtækið framleiðir og samt haldið stöðu sinni sem sá bílaframleiðandi í heimi sem hagnast hvað mest. Séu upplýsingar Der Spiegel réttar er vel skiljanlegt að stjórn og hluthafar vilji umbuna Wendelin Wiedeking forstjóra ríflega. Vikuritið segir að hann fái launabónus upp á 100 milljónir evra. Þess má geta að uppáhalds iðja Wiedekings er að yrkja jörðina á dísildrifinni Porsche-dráttarvél og rækta kartöflur.

Það er ekkert launungarmál að Porsche áformar að eignast meirihluta í Volkswagen. Fyrirtækið á nú 31% hlut í stærsta bílaframleiðanda Evrópu og í mars á þessu ári var greint frá því að stjórn Volkswagen-samstæðunnar hefði veitt samþykki sitt fyrir því að Porsche yki hlut sinn í fyrirtækinu úr 31% í 51%. Þetta er talið kosta Porsche um 20 milljarða dollara. Frekari kaup Porsche í VW þurfa hins vegar að fara fyrir samkeppnisyfirvöld í 20 löndum. Fram til þessa hafa aðeins átta þeirra gefið grænt ljós á gjörninginn. Erfitt er hins vegar að sjá hvernig kaup Porsche í VW geti breytt samkeppnisumhverfinu í bílaframleiðslu í Evrópu.

Porsche hefur einungis 0,6% markaðshlutdeild í Evrópu og framleiðir um það bil 100.000 bíla á ári. VW-samstæðan framleiddi hins vegar um 1,5 milljónir bíla á fyrstu sex mánuðum þessa árs og var með um 19,3% markaðshlutdeild í álfunni.