Útgerð frystitogara á undir högg að sækja og nauðsynlegt er að skapa greininni betri skilyrði. Þetta kemur fram í máli Kolbeins Árnasonar, framkvæmdastjóra LÍÚ, í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Frystitogurum hefur fækkað talsvert síðustu misseri og segir Kolbeinn þrjár megin ástæður fyrir veikri stöðu greinarinnar. Launakostnaður sé of hár og sjófrystar afurðir hafa lækkað í verði síðustu ár. Þá geri veiðigjöld útgerðum erfitt fyrir. Vegna þessa sé hagræðing nauðsynleg.

Launakostnaður á frystitogurum er um 4-6 % meiri en hjá annars konar skipum og gerir það m.a. að verkum að greinin er óhagkvæmari en annars konar útgerðir. Þess vegna hafa margar útgerðir brugðið á það ráð að selja frystiskipin sín eða breyta þeim í ísfisktogara.

Í Morgunblaðinu kemur fram að mest hafi 35 frystitogarar verið á skipaskrá á Íslandi en nú séu þeir 19. Frystiskipin sem nú eru gerð út frá Íslandi eru flest komin til ára sinna og vekur athygli að einungis tvö þeirra eru smíðuð á þessari öld.