Upplifunarfyrirtækið Sena hagnaðist um 107 milljónir króna árið 2023 samanborið við tæplega 390 milljóna hagnað árið áður. Stjórn félagsins lagði til við aðalfund að greiða 110 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.

Sala Senu nam 3.265 milljónum króna og jókst um 5,4% frá fyrra ári. Af sölutekjum nam sala vegna viðburða yfir 2,2 milljörðum og sala sem flokkast undir afþreyingu nam tæpum milljarði.

Framlegð félagsins dróst talsvert saman milli ára en að sama skapi lækkaði launakostnaður og annar rekstrarkostnaður töluvert milli ára. Rekstrarhagnaður Senu fyrir afskriftir (EBITDA) nam 197 milljónum í fyrra samanborið við 299 milljónum árið 2022.

„Rekstur Senu gekk heilt yfir nokkuð vel á árinu 2023. Verkefnastaða í viðburðum var góð, rekstur Concept Events kom inn í félagið og styrkti grunnstoðir og rekstur heildsölu gekk vel,“ segir í skýrslu stjórnar.

„Erfiðleikar voru í rekstri tónleika og má rekja til mikilla kostnaðarhækkana í uppsetningu tónleika og sveiflukenndrar eftirspurnar.“

Eignir Senu voru bókfærðar á 863 milljónir króna í árslok 2023 og eigið fé var um 331 milljón. Sena er að meirihluta í eigu forstjórans Jóns Diðriks Jónssonar í gegnum Draupni fjárfestingafélag.