Bréf Icelandair Group lækkuðu mest á aðalmarkaði í dag eða um 2% í 196 milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 1,47 krónum á hlut og hefur lækkað um 14,65% síðastliðinn mánuð. Hefur gengið ekki mælst lægra síðan í lok september á síðasta ári.

Hlutabréfaverð Play, sem er skráð á First North markað, lækkaði um 2,33% í 7 milljóna króna viðskiptum í dag. Gengi Play hefur fallið um 22,94% á síðasliðnum mánuði og hefur aldrei mælst lægra. Hlutafjárútboð flugfélagsins var í júní á síðasta ári en síðan þá hefur gengið lækkað um 31,71%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,63% í viðskiptum dagsins en heildarvelta á markaði nam 3,2 milljörðum króna. Af 21 skráðu félagi voru fimm græn í dag en þrettán voru rauð. Mest viðskipti voru með bréf Eimskips eða 719 milljónir króna. Verð bréfanna lækkaði um 1,85% en það stendur nú í 478 krónum á hlut. Gengið hefur lækkað um 8,95% á síðastliðnum mánuði.

Bréf fasteignafélagsins Eik hækkuðu um 0,74% í 6 milljóna króna viðskiptum, er það mesta hækkunin eftir viðskipti dagsins. Gengi bréfanna stendur nú í 13,6 krónum á hlut en það hefur lækkað um 6,85% á síðasliðnum mánuði.