Hlutabréf Icelandair höfðu lækkað um 2,3% í Kauphöllinni í dag og nam velta með bréf flugfélagsins 406 milljónum króna. Hlutabréfaverð Icelandair er nú 1,71 króna á hvern hlut og hefur gengi félagsins ekki verið það lágt frá 3. janúar.

Dagslokagengi Play endaði í 9,75 krónum á hvern hlut eftir 3,47% lækkun. Hlutabréf flugfélagsins eru nú á sínum lægsta stað frá því í byrjun sumars.

Gengi VÍS lækkaði einnig um 3,3% og nam velta með bréf félagsins 345 milljónum króna. Hlutabréf VÍS hækkuðu töluvert í lok júní og hélt gengið rúmlega tveggja mánaða stöðugleika. Gengið hefur hins vegar lækkað um tæp 9% á einni viku.

Marel lækkaði þar að auki um 1,31%, Reginn um 0,82% og Arion lækkaði um 0,36% með 540 milljóna króna veltu.

Hlutabréf Kviku hækkuðu hins vegar um 0,61% og nam velta með bréf bankans 159 milljónum króna.

Síminn hækkaði um 0,77% og Sýn hækkaði um 0,46%. Alvotech hækkaði þá um 0,39% og er hlutabréfaverð félagsins 1.275 krónur á hvern hlut.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,68% og er hlutabréfaverð hennar nú 2.350 krónur á hvern hlut.