Hlutabréfaverð lækkaði í Evrópu í morgun í kjölfar lækkunar heimsmarkaðsverðs á olíu en hlutabréfavísitölur í 12 löndum af 16 hafa lækkuðu, segir greiningardeild Glitnis.

?Lækkun olíuverðs hefur því ekki áhrif á markaði til hækkunar á hlutabréfamarkaði eins og oft gerist en sé litið til síðustu viku hefur Brent norðursjávarolíufatið lækkað um 0,24%. Lækkun á verði hlutabréfa skýrist af því hve olíufyrirtækin vega þungt í evrópskum hlutabréfavísitölum. Norska OBX hefur lækkað mest eða um 0,8% og hefur þar mest áhrif lækkun á Statoil sem er stærsti olíu og gas framleiðandi á Norðurlöndunum en hlutabréf þeirra hafa lækkað um 1,4%," segir greiningardeildin.

Hún segir að í Asíu hafi hlutabréfaverð lækkað fjóra daga í röð en þar hafa menn áhyggjur af því að neysla í Bandaríkjunum sé að dragast saman. Bandaríkin eru stærsti kaupandi útflutningsvara frá Asíu.

"Á föstudaginn lækkaði verð hlutabréfa í Bandaríkjunum fyrir utan tæknifyrirtæki en Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,2% en S&P 500 lækkaði um 0,1%. Dagurinn var sá rólegasti frá ársbyrjun og skýringuna má rekja til þess að fjárfestar bíða eftir skýrslum sem eiga að koma út í þessari viku um hagvöxt, neyslu, væntingar neytenda, framleiðslu og vinnumarkaðinn," segir greiningardeildin.