Sveiflur á gengi krónunnar hafa einnig orsakað óstöðugleika í hagkerfinu í gegnum tíðina. Krónan hefur gefið eftir á síðustu vikum sem vakið hefur áhyggjur margra af hækkandi verðlagi og verðbólguskoti. Stefna stjórnvalda í gjaldmiðlamálum er þó óbreytt að sögn Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra en Lilja var í viðtali í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

„Allir gjaldmiðlar sveiflast. Efnahagsstefna verður að vera þannig að hún þjóni viðkomandi ríki sem best. Peningamálastefna og ríkisfjármálastefna verða að fara saman. Þegar jafnvægi er í hagkerfinu þá er krónan í jafnvægi. Það segja margir að við þyrftum að vera með stærri og öflugri gjaldmiðil. En hvað er að gerast hjá Evrópusambandinu og á evrumenntasvæðinu? Þar fer ekki saman peningamálastefna og ríkisfjármálastefna. Fyrir sum ríki eins og Þýskaland hefur evran verið veikari en undirstöður þeirra hagkerfis gefa tilefni til. Það hefur búið til mjög mikinn viðskiptaafgang í Þýskalandi. Á sama tíma eru Grikkir með mun sterkari gjaldmiðil en þeirra hagkerfi þarf á að halda. Maður hefði búist við því eftir evrukrísuna að það yrði hagkvæmara að fara til Grikklands og ferðamönnum myndi fjölga til muna, en svo er ekki. Það gæti endað þannig að Evrópusambandið verður með ein ríkisfjármál og svo þarf millifærslukerfi til að jafna efnahagssveiflu milli landa. Á meðan það er ekki verða miklar áskoranir eins og sést hjá Ítalíu núna,“ segir Lilja.

Lilja bendir á að áður en núverandi kórónuáfallið kom upp hafi Ítalía staðið frammi fyrir litlum hagvexti, lágri fæðingartíðni og með miklar skuldir ríkissjóðs.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .