Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis sagði í samtali við Viðskiptablaðið vera spenntur fyrir nýju verkefni en eins og greint var frá í morgun gekk Bjarni til liðs við bandaríska fjárfestingafyrirtækið Paine & Partners.

Bjarni mun, ásamt Frank Reite fyrrverandi samstarfsmanni sínum hjá Glitni, stýra fjárfestingum sjóðsins á Norðurlöndunum. Ekkert liggur fyrir um eigin fjárfestingar Bjarna með Paine & Partners.

Aðspurður um aðdragandann að samstarfi við Paine & Partners segir Bjarni að hann hafi ekki verið langur en aftur á móti hafi hann þekkt stjórnendur sjóðsins lengi og verið í sambandið við þá síðustu misseri.

„Þetta er traustir aðilar og á því trausti byggjum við þetta samstarf,“ sagði Bjarni. „Sjóðurinn styður að baki fjárfestum og stundar það sem kallað hefur verið vingjarnlegar yfirtökur.“

Bjarni segir að Paine & Partners yfirtaki ekki félög í trássi við stjórnir þeirra eða hluthafa. „Það er það sem mér líkar mjög vel við þá,“ sagði Bjarni.

Hann segir að mörg tækifæri liggi í loftinu og þrátt fyrir niðursveiflur síðustu misseri sé nauðsynlegt að halda áfram að leita nýrra tækifæra í fjárfestingum.

Áfram umsvif á Íslandi

„Ég mun áfram starfa að einhverju leyti á Íslandi,“ sagði Bjarni aðspurður um frekari umsvif hér á landi. Hann segir að hann muni áfram taka þátt í þeim verkefnum sem hann hefur þegar hafið en ekki liggi fyrir ennþá hvort hann muni taka að sér ný verkefni.

Flytur til Noregs

Bjarni mun í ágúst á þessu ári flytja ásamt fjölskyldu sinni til Noregs. „Ég hef verið með annan fótinn hér síðustu ár og það leggst vel í fjölskylduna að prófa nýtt umhverfi,“ sagði Bjarni.