Það verður að teljast nokuð gott að evran er nú 2,3% veikari gagnvart Bandaríkjadal en hún var í upphafi árs, miðað við allt sem gengið hefur á í Evrópu á árinu. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag. Gengi evrunnar er einnig nokkuð sterkt sögulega séð. Gengið er 7% sterkara gagnvar Bandaríkjadal en það hefur verið að jafnaði frá því myntin var tekin upp þann 1. janúar 2000.

Evran hefur styrkst frá því um síðustu viku, en þá hafði það aðeins gefið eftir. „Eflaust hafa fréttir þess efnis að Evrópski seðlabankinn hefur nú byrjað að bjóða evrópskum bönkum upp á ódýra þriggja ára fjármögnun eitthvað með styrkingu evrunnar að gera síðustu daga, en bankinn lánaði rúmlega 500 evrópskum bönkum 490 ma. evra fyrr í vikunni í þessu nýja úrræði. Vextir á lánunum eru reiknaðir sem meðaltal stýrivaxta á tímabilinu og greiddir í einu lagi við lokagjalddaga en stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 1%. Þetta nýja úrræði Evrópska seðlabankans þykir vera til marks um að bankinn hafi nú brett upp ermarnar og sýni nú aukna staðfestu í að koma í veg fyrir að skuldakreppan í Evrópu stigmagnist og verði að lausafjárkreppu,“ segir í Morgunkorni.