Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og segir Reuters fréttastofan helstu ástæðurnar vera áhyggjur fjárfesta af vaxandi verðbólgu, hátt olíuverð og lélegar afkomur skráðra félaga.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,7% í dag og hefur ekki verið lægri frá því í byrjun mánaðarins.

Olíufélögin BP og Shell héldu FTSE 100 vísitölunni í Lundúnum á floti en hún hækkaði um 0,1% í dag á meðan DAX vísitalan í Frankfurt lækkaði um 1,1% og CAC 40 vísitalan í París lækkaði um 0,5%. AEX vísitalan í Amsterdam stóð í stað.

Eins og fyrr segir hefur olíuverð hækkað nokkuð það sem af er degi og í kjölfarið hækkuðu olíufélög nokkuð. BP hækkaði um 3,5% og Shell um 4,7% svo dæmi séu tekin.

Flugfélög hafa þó lækkað í dag en þau eru viðkvæm fyrir hækkandi eldsneytisverði. Þannig lækkaði Ryanair um 5,1%, Air France um 3,5% og Lufthansa um 3,1%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,6% en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,4%.