Evrópskar hlutabréfavísitölur hafa lækkað það sem af er degi og í frétt Bloomberg er þessi þróun rakin annars vegar til þess að framleiðsla í Kína dróst saman ellefta mánuðinn í röð og hins vegar vegna þess að framleiðsla dróst saman í Evrópu. Hefur hún ekki verið minni í álfunni í þrjú ár.

Í frétt BBC segir að þessar tölur bendi til þess að evrusvæðið sé á ný að sigla inn í efnahagslega niðursveiflu. FTSE vísitalan breska hefur lækkað um 0,74%, þýska DAX um 0,53% og franska CAC vísitalan um 0,87%. Mesta lækkunin hefur verið á Spáni, en IBEX vísitalan hefur lækkað um 1,51% það sem af er degi.