Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa lækkað verulegu það sem af er morgni í kjölfar þess að Donald Trump tilkynnti um ferðabann milli Evrópu og Bandaríkjanna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun mun ferðabannið hafa mikil áhrif á Icelandair, en um 27% ferða félagsins næsta mánuðinn eiga að vera til Bandaríkjanna.

Það sem af er degi hefur Euro Stoxx 50 vísitalan lækkað um 6,7%, þýska DAX vísitalan um 6,8%, franska CAC 40 um 6,5% og spænska IBEX 35 um 6,4%. Þrátt fyrir að ferðabannið nái ekki til Bretlands hefur FTSE 100 vísitalan í London lækkað um 6%. Á norðurlöndunum er einnig sömu að segja en í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Helsinki nemur lækkunin um 6%.

Gengi bréfa flugfélaganna hefur orðið fyrir langmestu áhrifunum. Þannig hefur gengi þýska flugfélagsins Lufthansa lækkað um 12,09% í morgun, niður í 8,96 evrur, þegar þetta er skrifað, IAG, eigandi bæði British Aiways og Iberia, hefur lækkað um 8,36%, niður í 2,52 dali, og Norwegian Air hefur lækkað um þriðjung eða niður í 60 evrusent.

Lækkunin nú kemur í kjölfar mikillar lækkunar á bandarískum mörkuðum í gær, á sama tíma og evrópsk hlutabréf höfðu tekið við sér eftir aðgerðir Englandsbanka og annarra seðlabanka til að ýta við hagkerfinu.