*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 11. mars 2019 18:16

Fagna frumvarpi um innflutning matvæla

Vörður, SVÞ, SA og SFS vilja heimila innflutning á fersku kjöti og eggjum frá ESB ríkjum.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ávarpaði ársfund Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Haraldur Guðjónsson

Vörður – fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík er eitt fjölmargra félaga og hagsmunasamtaka sem fagna frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um að heimila innflutning á fersku kjöti og eggjum frá ríkjum innan EES-svæðisins.

„Vörður lýsir yfir fullum stuðningi við frumvarp Kristjáns Þórs og hvetur hann, og ríkisstjórnina alla, til góðra verka,“ kemur m.a. fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

FA, SVÞ, SA og SFS styðja öll frumvarpið

Nefna má fleiri aðila og þá sérstaklega hagsmunasamtök sem hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið. Þar á meðal vel að merkja Félag atvinnurekenda sem segir það löngu tímabært, enda hefur félagið lengi barist fyrir að innflutningurinn verði heimilaður eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Segja samtökin ólögmætt ástand hafa ríkt frá árinu 2009, þegar matvælalöggjöf ESB um búvörur var leidd í lög, án þess að um leið hafi banni við innflutningi ferskra búvara hafi verið aflétt um leið. Meðfylgjandi umsögn félagsins er ítarleg skýrsla um möguleg áhrif þess fyrir lýðheilsu og heilbrigði dýra á Íslandi ef banninu yrði aflétt.

Einnig eru Samtök verslunar og þjónustu hlynnt frumvarpinu og segja samtökin afnám þess sem þeir kalla ólögmætar innflutningshindranir vera löngu tímabærar og að mikilvægi þess að lagafrumvarpið verði að lögum verði seint áréttað nógsamlega. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í haust velti framkvæmdastjóri samtakanna því upp hvort brugðist yrði eins hratt við dómsúrskurðinum eins og þegar lögum um fiskeldi var breytt á níu klukkustundum.

Loks senda Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi frá sér sameiginlega og jákvæða umsögn um frumvarpsdrögin, sem þau telja mikilvægt að verði að lögum sem fyrst.

Í umsögninni segir að hindranalaus frjáls viðskipti hafi ætíð reynst Íslendingum vel, aukið hagvöxt og velferð alls almennings. Svo muni einnig verða með frjáls viðskipti með matvæli. Jafnframt óttast félagið að íslenskar sjávarafurðir muni ekki njóta aðgangs að mörkuðum ESB ef lögin verði ekki samþykkt.

„Afleiðingar þess að taka ekki upp endurskoðaða matvælalöggjöf ESB yrðu sjávarútvegi mjög þungbærar og geta leitt til
þess að íslenskar sjávarafurðir eigi ekki óhindrað aðgengi að mörkuðum í Evrópusambandinu og að
Ísland yrði flokkað sem svo kallað þriðja ríki gagnvart ESB,“ segir í umsögn SFA og SA.

Samtökin styðja stefnu stjórnvalda um svokallaðar viðbótartryggingar vegna hættu á salmonellusmiti. Eðlilegt sé að efla markaðseftirlit sem nái jafnt til innlendra matvæla og erlendra. Jafnframt sé mikilvægt að efla áhættumat.

Segja frumvarpið þræða gullin meðalveg

Tilgangur frumvarpsins er sá að fylgja eftir skuldbindingum Íslands samkvæmt tvíhliða alþjóðasamningum frá árinu 2007.
Þá hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmdist ekki ákvæðum EES-samningsins.

Vörður segir í sínu áliti að um sé að ræða skynsamlegt frumvarp sem leiðir saman sjónarmið um viðskiptafrelsi og matvælaöryggi og þræðir þar gullinn milliveg. Aukið verslunarfrelsi af þeim toga sem boðað sé í frumvarpinu feli í sér veigamikla kjarabót fyrir neytendur hér á landi sem munu framvegis njóta áður óþekkts valfrelsis við matarinnkaup sín.

Matarinnkaup eru stór útgjaldaliður á flestum heimilum landsins og því er ljóst að frumvarp þetta, og sú kjarabót sem það felur í sér fyrir neytendur, er jákvætt innlegg í þær viðkvæmu kjaraviðræður sem nú standa yfir segir jafnframt í áliti félagsins.

Engin ástæða er sögð til að óttast hið aukna valfrelsi sem íslenskum neytendum er þarna veitt enda feli frumvarpið það jafnframt í sér að sterk staða Íslands þegar kemur að vörnum gegn matvælasýkingum verður tryggð með nýju lagaákvæði þess efnis að óheimilt verði að dreifa alifuglakjöti nema matvælafyrirtæki geti sýnt fram á að kjötið sé ekki sýkt af kampýlóbakter.

Samhliða framlagningu frumvarpsins hafa stjórnvöld svo kynnt tólf skrefa aðgerðaráætlun sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.