Góður hópur fólks gerði upp árið 2022 í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Meðal þeirra var Orri Hauksson, forstjóri Símans, en eins og gefur að skilja var 70 milljarða króna sala Símans á Mílu til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian honum ofarlega í huga.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

„Farsóttinni og ráðstöfunum vegna hennar lauk endanlega á árinu hér á landi. Það er mikill léttir. Í tilfelli okkar hjá Símanum – og fyrir Ísland í heild – var gleðilegt að sala Mílu gekk loks í gegn, tæpu ári eftir að samningar tókust þar um.

Reyndar ollu hinar óþörfu tafir og skorður sem viðskiptunum voru settar því að um 10 milljarðar fluttust frá hluthöfum Símans, sem aðallega eru íslenskir lífeyrissjóðir, til evrópskra fjárfesta, sem eru að stóru leyti lífeyrissjóðir líka. Vond býtti þar fyrir þá íslensku og fyrir íslenskt hagkerfi í heild. Sem betur fer tókst þó að afstýra því að viðskiptin dyttu upp fyrir.“

Hvernig var árið 2022 á heildina litið?

„Það góða við 2022 er að því er senn lokið. Stríð, vextir og verðbólga voru einkennismerki ársins. Eignir lækkuðu í verði og kostnaður jókst. Ísland sker sig þó blessunarlega úr að mörgu leyti, hér er hrein orka á viðráðanlegum kjörum og gott lífsmark í hagkerfinu.“

Hverjar eru væntingar þínar til næsta árs?

„Raunsæ bjartsýni lýsir kannski best stemningunni. Við vitum að margt á eftir að verða verra í heiminum áður en það verður aftur betra. Íslenskt hagkerfi er að einhverju leyti varið gagnvart ytri kreppum, til skamms tíma að minnsta kosti. Opið atvinnuog þjóðlíf, með mikinn innflutning og útflutning, verður þó alltaf fyrir áhrifum af alþjóðlegum kröftum sem við höfum lítil áhrif á. Vonandi dregur úr neikvæðum hliðum þeirra í lok næsta árs.“