Helsta ástæðan fyrir mikilli hækkun Úrvalsvísitölunnar frá áramótum er Marel. „Hlutfallslega er Marel orðið svo stórt og vegna þess hve þungt félagið vigtar í vísitölunni skekkir það mjög myndina,“ segir Sveinn Þórarinsson hagfræðingur hjá Landsbankanum. „Félagið hefur hækkað um ríflega 40% frá áramótum og markaðsverðmæti er orðið um 340 milljarðar króna. Þetta er ansi stór fiskur í lítilli tjörn og eðlilegt að ákveðið hafi verið að skrá það einnig erlendis. Þá er félagið mjög takmarkað háð efnahagsástandinu hér á landi. Kjarasamningar og örlög Wow hafa mjög lítil áhrif á reksturinn og þess vegna er mjög veikt samband á milli íslenska hagkerfisins og markaðsverðmæti félagsins fyrir utan breytingar á verði krónunnar.

Hækkun félagsins síðastliðna mánuði má rekja til þess að Marel skilaði mjög góðu uppgjöri fyrir síðasta ár. Samkvæmt greiningum okkar var Marel undirverðlagt töluvert lengi en hefur núna náð eðlilegri gildum. Fyrst og fremst eru það erlendir fjárfestar sem hafa drifið hækkunina áfram og hér hefur tvískráning félagsins skipt máli. Bæði hefur hún aukið áhuga erlendra fjárfesta og skapað virkari markað með bréfin.

Erlendir fjárfestar hafa haft áhrif víðar. Arion banki hefur til að mynda verið á nokkuð góðu róli í Kauphöllinni og hækkað um 15% frá áramótum. Þar eiga erlendir fjárfestar stóran hlut í máli og almennar breytingar á eignarhaldinu, en eignarhlutur fjárfestingasjóðsins Taconic Capital hefur aukist verulega og er nú um 15%,“ segir Sveinn. Stefán Broddi, hagfræðingur hjá Arion banka, segir að þrátt fyrir mikinn vilja íslenskra fyrirtækja sem sífellt séu að bæta samskipti við alþjóðlega fjárfesta hafi þeim ekki fjölgað að ráði undanfarin ár.

„Ef Marel er undanskilið þá hefur að mínu mati ekki orðið aukning í fjárfestingu útlendinga á innlendum hlutabréfamarkaði, því miður. Þar kann að skipta máli að ef tekin er saman þróun hlutabréfaverðs og gengis krónunnar þá var ávöxtun fyrir erlenda hluthafa verulega neikvæð í fyrra og íslenskur hlutabréfamarkaður hefur ekki skilað góðri ávöxtun í krónum þrjú ár í röð, 2016 til 2018. Fyrir utan Marel þá eru hreyfingar á íslenskum hlutabréfamarkaði aðallega vegna þess að innlendir aðilar eru að kaupa og selja. Stór erlend fjárfesting í Icelandair og Arion banka nýverið er þó undantekning frá þessu,” segir Stefán Broddi.

Fjármagnshöft hafa verið afnumin að fullu en Sveinn Þórðarson segir þó ekki endilega samband á milli þess og aukinnar erlendrar fjárfestingu. „Afnám haftanna er auðvitað mjög jákvætt og sjálfsagt haft hvetjandi áhrif á erlenda fjárfesta. Hins vegar er tiltölulega langt síðan höftum var aflétt á fjár- festingar í hlutabréfum og síðustu breytingar á höftunum hafa frekar beinst að skuldabréfamörkuðum. Hvort aukin eftirspurn á skuldabréfamarkaði og miklar verðhækkanir að undanförnu séu vegna erlendra aðila veit ég ekki fyrir víst. Lægri ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur hins vegar jákvæð áhrif á markað með hlutabréf þannig að mögulega hefur aukin fjárfesting erlendra aðila á skuldabréfamarkaði óbeint stutt við verð hlutabréfa,” segir Sveinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .