*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 23. maí 2020 15:04

Faraldurinn flækst fyrir Björgólfi

Áformum Novator um að koma upp fjarskiptafélagi í Kólumbíu seinkar fram á næsta ár vegna kórónuveirufaraldursins.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson, aðaleigandi Novator.
Aðsend mynd

Áformum Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, um að setja í loftið fjarskiptafélag í Kólumbíu seinkar fram á næsta ár vegna heimsfaraldursins. Novator vann útboð á vegum kólumbíska ríkisins um uppbyggingu fjarskiptanets á 674 stöðum í Kólumbíu í desember sem félagið greiðir 257 milljónir dollara fyrir líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun ársins.

Chris Bannister, sem leiðir verkefnið fyrir Novator, segir í viðtali við kólumbíska blaðið El Tiempo að heimsfaraldurinn hafi flækt uppbyggingarferlið. Ráðning starfsmanna og samskipti við verktaka hafi að mestu farið fram í gegnum fjarfundarbúnað, sem sé afar óvenjulegt við uppbyggingu nýs fyrirtækis.

Bannister hefur haft aðsetur í Bogotá, höfuðborg Kólumbíu, þar sem útgöngubann hefur verið í gildi. Bannister er fyrrverandi forstjóri fjarskiptafélagsins WOM sem Novator byggði upp í Chile.