Ríkiskaup segja að útboð á kaupum hins opinbera á flugmiðum sé nú í vinnslu og stefnt sé að því að það fari fram síðar í þessum mánuði. Túristi greinir frá þessu.

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu síðastliðið vor að kaup hins opinbera á flugmiðum væru það umfangsmikil að leita þyrfti tilboða í þau á nýjan leik. Þá hafði Wow air beint kæru til nefndarinnar þar sem þess var krafist að ríkið myndi bjóða kaupin út.

Greint er frá því á vef Túrista að gert sé ráð fyrir því í komandi útboði að óheimilt verði að bjóða hvata til ferða hjá ákveðnu flugfélagi og reynt verði að koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun einstaklinga. Þá komi fram í svari frá Ríkiskaupum að siðareglur ráðuneytanna muni gilda fyrir samninginn og þar komi meðal annars fram að starfsmönnum sé með öllu óheimilt að veita viðtöku hvers konar gjöfum.