Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu dróst lítillega saman á milli vikna í vikunni, líkt og í síðustu viku, en þar síðasta vika var sú veltumesta á þessu ári.

Þannig nam veltan nú í vikunni 2.244 milljónum króna samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands, samanborið við 2.357 milljónir króna veltu í síðustu viku og dróst því saman um 5% á milli vikna.

Fjögurra vikna meðalvelta dregst einnig lítillega saman á milli vikna en í síðustu viku hafði hún ekki verið hærri frá því í lok síðasta ár (þegar velta á markaði hafði reyndar verið óvenju mikil í desember á síðasta ári). Þannig nemur fjögurra vikna meðalvelta nú 2.268 milljónum króna, samanborið við 2.284 milljónir í vikunni á undan.

Fjögurra vikna meðalvelta  hefur nú hækkað um 420 milljónir króna á fjórum vikum.

Til að sjá betur heildarmyndina af fasteignamarkaðir má sjá þróun fjögurra vikna meðalveltu á milli ára á myndinni hér að ofan. Þar sést að fjögurra vikna meðalvelta hefur hækkað um 56% á milli ára, en á sama tíma í fyrra hafði fjögurra vikna meðalvelta dregist saman um 43% milli ára.

Tólf vikna meðalvelta jókst á milli vikna í vikunni eða um 63 milljónir króna, og nemur nú 1.867 milljónum króna. Þá hefur 12 vikna meðalvelta ekki verið hærri frá því í byrjun febrúar sl.

Þá má skoða meðalveltu á viku síðustu 12 mánuði en hún er nú 1.611 milljónir króna á viku og hefur aukist um 36% á milli ára.

Í þessari viku:

Alls var 84 kaupsamningum þinglýst í vikunni, samanborið við 85 samninga í vikunni á undan. Alls var 39 samningum þinglýst að meðaltali á síðasta ári en 53 samningum að meðaltali á viku það sem af er þessu ári þannig að fjöldi samninga síðustu mánuði er töluvert yfir meðaltali.

Meðalupphæð á hvern samning lækkaði á milli vikna í þessari viku og nam 26,7 milljónum króna, samanborið við 27,7 milljónir króna í síðustu viku. Meðalupphæð á hvern samning á síðasta ári var 34,6 milljónir króna en það sem af nemur þessu ári nemur meðalupphæðin 28,7 milljónum króna og hefur því lækkað nokkuð.

Meðaltal síðustu 12 vikna er þó 29,2 milljónir króna.