Óvissa í verðlagsþróun næstu mánaða og missera ræðst að miklu leyti af þeirri óvissu sem umlykur verðþróun fasteigna á næstunni að mati Hagfræðideildar Landsbankans. Í nýrri Hagsjá deildarinnar segir að óvissa um verðþróun fasteigna sé töluvert mikil um þessar mundir. „Þannig er í sjálfu sér óvíst hvort markaðurinn muni taka við sér á nýjan leik en ýmsir undirliggjandi þættir styðja við áframhaldandi hækkanir s.s. lágt vaxtaumhverfi, aukning kaupmáttar og framboðsskortur á húsnæði.“

Janúar var 44. mánuðurinn í röð þar sem verðbólga mældist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2,5%. „Eitt megineinkenni tímabilsins hefur verið átök tveggja krafta sem hafa togað í sitthvora áttina. Annars vegar innfluttar vörur og hins vegar fasteignaverð. Framlag innfluttra vara til 12 mánaða verðbólgu hefur að meðaltali verið neikvætt um 1,2% í hverjum mánuði á tímabilinu en sú þróun skýrist fyrst og fremst af styrkingu krónunnar þó að óvenjulág verðbólga í viðskiptalöndunum á undanförnum árum hafi einnig hjálpað til.“