Fjármagn hélt áfram að streyma inn í hlutabréfasjóði í janúar síðastliðinn er alls seldust hlutdeildarskírteini fyrir tæplega 4,2 milljarða króna. Á sama tíma nam innlausn hlutdeildarskírteina rúmlega 2,1 milljarði króna. Hreint innflæði inn í hlutabréfasjóði, það er sala nýrra hlutdeildarskírteina umfram innlausnir, nam því rúmlega tveimur milljörðum króna í janúar. Þetta er annan mánuðinn í röð sem hreint innflæði í hlutabréfasjóðina er í kringum tvo milljarða en í desember nam hreint innflæði tæplega 2,1 milljarði. Þá var um að ræða mesta innflæði í hlutabréfasjóði í tvö ár, eða frá því í desember 2021.

Þetta kemur fram í tölum Seðlabanka Íslands um eignir verðbréfa- og fjárfestingasjóða sem birtar voru í morgun.

Viðskiptablaðið sagði frá því í lok síðasta mánaðar markaðsaðilar hafi haft orð á því að töluvert fjármagn hafi flætt inn í hlutabréfasjóði í janúar. Um viðsnúning var að ræða í desember því í fjóra mánuði á undan hafði hreint útflæði samtals numið rúmlega 5,8 milljörðum króna.

Flúðu hlutabréfasjóði í stórum stíl

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um flúðu fjárfestar í stórum stíl hlutabréfasjóði á síðasta ári um leið og hlutabréfamarkaður gaf eftir. Aftur á móti voru teikn á lofti um betri tíð í nóvembertölum Seðlabankans því fjárfesting í hlutabréfasjóðum tók við sér í nóvember sl. eftir ansi magra mánuði á undan. Þannig nam sala hlutdeildarskírteina tæplega 1,2 milljörðum króna í nóvember eftir að hafa numið 314 milljónum í október, 267 milljónum í september og 372 milljónum í ágúst. Salan í nóvember var því meiri en til samans þrjá mánuðina á undan. Til marks um stemningsleysið umrædda þrjá mánuði náði fjárfesting í hlutabréfasjóðum sínum lægsta punkti í nærri 12 ár í september, eða frá því í október árið 2011.

Eins og löngu þekkt er orðið þrífast hlutabréfamarkaðir ekkert sérstaklega vel í mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi líkt og ríkt hefur hér á landi undanfarin misseri. Umrætt ástand hefur einnig litað skuldabréfamarkaðinn og þar af leiðandi ávöxtun skuldabréfasjóða.

Þrátt fyrir aukna sölu hlutdeildarskírteina var útflæði meira en innflæði í hlutabréfasjóði í nóvember er útflæðið nam 2,3 milljörðum. Í október var útflæðið 1,7 milljarðar og 2,4 milljarðar í september.

Innlausn fjárfesta í hlutabréfasjóðum nam alls um 23,4 milljörðum króna á síðasta ári meðan sala hlutdeildarskírteina nam rétt rúmlega 15 milljörðum króna. Hreint útflæði nam því hátt í 8,3 milljörðum króna árið 2023 eftir að hafa verið um 8 milljarðar árið 2022.