Larry Ellison, stofnandi og yfirmaður bandaríska tölvufyrirtækisins Oracle, var væntanlega sæmilega sáttur við launaseðilinn sinn í fyrra, en hann hljóðaði upp á um 13,2 milljarða króna.

Laun hans hækkuðu um ríflega 10,6 milljarða króna í fyrra.

Þar með telst hann hafa fengið skörpustu launahækkun nokkurs bandarísks stjórnanda á listanum yfir 500 stærstu fyrirtækja þar í landi. Með launum er átt við föstum tekjum, bónusum og hlutabréfa.

Kann þetta að rifja upp brandara sem vinsæll var í Silicon Valley á árum áður en hann var svohljóðandi: Hver er munurinn á Guði og Larry Ellison? Jú, Guð heldur ekki að hann sé Larry Ellison.

Fyrsta lækkun forstjóra í fimm ár

Laun bandarískra forstjóra á listanum hækkuðu að meðaltali um 38% árið 2006 en lækkuðu að meðaltali um 15% í fyrra að því er fram kemur í frétt LA Times.

Er þetta í fyrsta skipti sem laun forstjóra fyrirtækjanna 500 lækka síðan 2002.

Samanlögð heildarlaun forstjóranna 500 námu 6,4 milljarði dollara í fyrra, eða 12,8 milljónir dollara á mann að meðaltali.

Fastar tekjur Ellison voru „aðeins” ein milljón dollara en hann fékk 182 milljónir dollara með því að nýta sér umsaminn kauprétt.

Þeir sem á eftir honum koma á listanum gerðu flestir slíkt hið sama, þeir Frederic M. Poses hjá Trane, sem fékk 127 milljón dollara í laun, Aubrey K. McClandon hjá Chesapeake Energy, sem fékk 117 milljónir dollara í laun, Angelo R. Mozilo hjá Countrywide Financial, sem fékk 103 milljónir dollara, og Howard D. Schultz hjá Starbucks, sem fékk 99 milljónir dollara.