Félagið Caramba-hugmyndir og orð ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 7. september síðastliðinn, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Félagið var í eigu Björns Inga Hrafnssonar, eins eiganda Vefpressunar og fyrrum borgarfulltrúa, og Hólmfríðar Rósar Eyjólfsdóttur. Skiptastjóri búsins er Guðbjörg Benjamínsdóttir, samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu.

Fjallað er um Caramba í Rannsóknarskýrslu Alþingis, í kafla sem fjallar um fjölmiðlamenn sem fengu lán frá bönkunum. Lán til Björns Inga voru öll veitt af Kaupþingi. Annars vegar voru lánin til Björns Inga beint, og voru hæst í september 2008 rúmar 100 milljónir króna. Hins vegar voru lán veitt til Caramba. Þau lán voru því sem næst öll í formi framvirkra samninga um hlutabréf, að því er kemur fram í skýrslunni.

Hæstu lánasamningarnir voru um hlutabréf í Kaupþingi, Exista, bakkavör og Spron. „Þá vekur athygli að í september 2008 gerði félagið nýja samninga um kaup á hlutabréfum Exista, sem námu um 230 milljónum króna. Við gerð þeirra samninga ríflega tvöfölduðust skuldir félagsins.“ Hæst námu skuldir Björns Inga og félags hans um 563 milljónum króna, í lok september 2008.

Á öðrum stað í skýrslunni er lán Kaupþings til Caramba nefnt sem dæmi um lánveitingar til fyrirtækja, sem erfitt er að sjá hvernig standa eigi undir greiðslum á lánunum, til kaupa á hlutabréfum á tímamarki þar sem það virðist hafa verið hagsmunamál fyrir bankann að halda uppi verði umræddra hlutabréfa.

Eftir að Rannsóknarskýrslan kom út tilkynnti Björn Ingi að hann hætti tímabundið sem ritstjóri Pressunar. í yfirlýsingu frá þeim tíma, þann 12. apríl 2010, sagði hann hið rétta í málinu að ekkert ólöglegt hafi verið á ferðinni.

„Ég hef aldrei þegið far í einkaþotu af bönkum eða öðrum stórfyrirtækjum, aldrei þegið boð í laxveiði frá fyrirtækjum, á enga erlenda reikninga og hef aldrei tekið stöðu gegn krónunni og þótt fyrirtæki í eigu mín og konu minnar, sem er löggiltur verðbréfamiðlari og sérfræðingur á þessu sviði, hafi átt í hlutabréfaviðskiptum og tekið lán í þeim tilgangi, eins og þúsundir annarra sambærilegra félaga, þýðir það ekki að neitt óeðlilegt hafi verið á ferðinni.

Ég hef aldrei fengið krónu afskrifaða í íslensku bankakerfi og stend ekki vel fjárhagslega í dag, frekar en svo fjölmargir aðrir landsmenn. Ef ég hefði notið sérstakrar velvildar bankanna og haft sérstakar innherjaupplýsingar, er varla líklegt að félag í minni eigu hefði átt hlutabréf í bankahruninu og jafnvel keypt slíkt bréf. Við hjónin töpuðum öllum okkar sparnaði og miklu meira en það í hruninu.

Varla bendir það til þess að ég hafi vitað að bankarnir væru á leið í þrot?

Ég er að þessu sögðu vitaskuld jafn sannfærður og fyrr um að nafn mitt verði hreinsað og mun vinna að því ásamt mínum lögmanni," sagði meðal annars í yfirlýsingu Björns Inga.