*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 23. maí 2013 08:19

Félag stofnað um hafnarsvæðið á Dysnesi

Nýtt félag mun vinna að uppbyggingu, markaðsstarfi og kynningu á Dysnesi sem framtíðar hafnarsvæði.

Ritstjórn
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson mun veita nýja félaginu forstöðu.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Félagið Dysnes Þróunarfélag ehf. verður stofnað í dag til uppbyggingar, markaðsstarfs og kynningar á Dysnesi við Eyjafjörð sem framtíðar hafnarsvæði vegna þjónustu við námu og olíuvinnslu fyrir norðan Ísland.

Í tilkynningu kemur fram að Eimskip, Mannvit, Hafnasamlag Norðurlands, Slippurinn Akureyri og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hafa stofnað með sér félagið í ljósi vaxandi möguleika Íslendinga vegna umsvifa á Grænlandi, olíuleitar og -borana úti fyrir norður Íslandi og aukinna pólsiglinga. Félagið mun koma að þróun og uppbyggingu hafnarmannvirkja á Dysnesi, sem er um 15 km norðan við Akureyri. Þar eru um 90 hektarar lands áætlaðir fyrir þessa þjónustu þar af 30 hektarar með landfyllingu.

Dysnes er mjög vel staðsett til slíkrar uppbyggingar en þar er nægt land auk þess semhafnarskilyrði eru þar sérstaklega góð. Byggðir verða bryggjukantar sem nýtast best fyrir þá þjónustu sem koma mun á svæðið og með það viðlegudýpi sem nauðsynlegt verður. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í áföngum og að fyrsti áfangi hefjist að loknu umhverfismati, sem ráðist verður í. Heildarfjárfesting í svæðinu getur numið allt að 18 milljörðum á komandi árum.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar mun sjá um daglegan rekstur félagsins og mun Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson veita því forstöðu.