Skiptum er lokið á félaginu SM1 ehf. Við gjaldþrot skuldaði félagið alls um 5,4 milljarða króna en það var í eigu félagsins Suðurnesjamenn. Fjallað var um málefni Suðurnesjamanna í DV og greindi frá að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og Grindavík, þeir Þorsteinn Erlingsson og Sigmar Eðvarsson, tóku beinan og óbeinan þátt í fjárfestingum félagsins. Félagið var lýst gjaldþrota í mars 2010 og hafði þá aldrei skilað ársreikningi, samkvæmt ársreikningaskrá. Skiptastjóri SM1 var Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. og lauk skiptum um miðjan ágúst sl.

Skuld félagsins var við Sparisjóðabankann, síðar Icebank, og Spron. Samkvæmt ársreikningi SM1 fyrir árið 2007 átti félagið 9,5% hlut í Icebank. Bókfært virði hlutarins var þá rúmlega 3 milljarðar króna. Hluturinn var veðsettur fyrir skuldum sem námu þá 2,1 milljarði. Skuldirnar voru gengistryggðar og bar að endurgreiða á árinu 2010. Vandræðin hófust þó mun fyrr, eða strax á árinu 2008. Viðskiptablaðið greindi frá því í september 2008 að Suðurnesjamenn væru í samningaviðræðum við Icebank eftir að félagið svaraði ekki veðkalli bankans upp á 2,5 milljarða vegna láns til kaupa á stofnfjárhlutum í Sparisjóði Keflavíkur (Spkef).

Suðurnesjamenn var upphaflega stofnað til þess að kaupa hlut í Hitaveitu Suðurnesja þegar ríkið seldi sinn hlut snemma árs 2007. Ekki varð af þeim viðskiptum og sneri félagið sér þá að Sparisjóði Keflavíkur. Það var stór þátttakandi í tveimur stofnfjárútboðum sem Spkef efndi til fyrir bankahrun. Samkvæmt heimildum DV, og sagt var frá í frétt blaðsins í apríl 2009, námu skuldir Suðurnesjamanna og dótturfélaga um fimm milljörðum króna við Icebank og SPRON.