Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar sem sinnir útleigu á félagslegu íbúðarhúsnæði, hagnaðist um 16,5 milljarða króna árið 2022, samanborið við 18,5 milljarða hagnað árið áður. Félagsbústaðir högnuðust því um tæplega 35 milljarða króna á árunum 2021-2022.

Hagnaður félagsins er allur tilkominn vegna 20 milljarða króna hækkunar á virði fasteignamats eigna félagsins árið 2022. Til samanburðar var matsbreyting fjárfestingareigna 19,6 milljarðar árið 2021.

„Hagnaðurinn verður ekki innleystur nema með eignasölu,“ segir í afkomutilkynningu sem Félagsbústaðir sendu frá sér í gær.

Níu milljörðum undir útkomuspá

Í útkomuspá Reykjavíkurborgar um reksturinn 2022, sem birt var í nóvember, var gert ráð fyrir að matsbreytingar Félagsbústaða yrðu um 28,9 milljarðar árið 20222. Matsbreytingar Félagsbústaða í fyrra voru ‏því nærri 9 milljörðum undir útkomuspá borgarinnar.

Útkomuspá Reykjavíkurborgar gerði ráð fyrir að afkoma A- og B-hluta Reykjavíkurborgar yrði jákvæð um 15,4 milljarða króna árið 2022. Reykjavíkurborg birtir ársuppgjör bráðlega.

Fjármagnskostnaður meiri en rekstrartekjur

Rekstrartekjur Félagsbústaða á árinu 2022 námu 5,7 milljörðum sem er 12% aukning milli ára. Í tilkynningunni rekur félagið tekjuaukninguna til hækkunar leiguverðs vegna verðlagsbreytinga og stækkunar eignasafnsins.

Rekstrargjöld Félagsbústaða jukust um 16% á milli ára og námu 3,3 milljörðum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu jókst um 6,9% og nam 2,4 milljörðum. Fjármagnsgjöld námu 5,9 milljörðum í fyrra samanborið við 3,4 milljarða árið 2021.

Bókfært virði fjárfestingareigna Félagsbústaða, þ.e. félagslegu íbúðarhúsnæði, nam 148,7 milljörðum króna í árslok 2022. Þar af nam kostnaðarverð fyrir matshækkun tæplega 52,8 milljörðum en heildarmatshækkun 95,9 milljörðum króna.

Eignir Félagsbústaða voru bókfærðar á 149,4 milljarða í lok síðasta árs, eigið fé var um 83,8 milljarðar og eiginfjárhlutfall var 56,1%.

Þórður Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá Sjóvá, hafði sitt að segja um fjárhagsstöðu Félagsbústaða. Í færslu á Twitter í gær sagði hann fjármagnsskipan Félagsbústaða vera ósjálfbæra.

ESA haft matsaðferð Félagsbústaða til skoðunar

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur haft matsaðferð Félagsbústaða á fjárfestingareignum sínum til skoðunar frá árinu 2021. ESA tilkynnti í forlokunarbréfi til innviðaráðuneytisins síðasta sumar að stofnunin telji ekki forsendur til að aðhafast vegna reikningsskila Reykjavíkurborgar og dótturfélaga. Málið er ‏þó enn í ferli.

ESA hafði fyrr í ferlinu bent í bréfi til ráðuneytisins á túlkun Alþjóðareikningsskilaráðsins (IPSASB) á fjárfestingareign samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila („IPSAS“), nánar tiltekið IPSAS 16 staðlinum. Þar sé beinlínis tekið fram að eignir sem notaðar eru undir félagslegt húsnæði, en sem einnig skapa tekjur, þrátt fyrir að leiga sé undir markaðsvirði, séu talin dæmi um eignir sem falli utan skilgreiningar á „fjárfestingareign“.

Innviðaráðuneytið sagði hins vegar að þar sem Félagsbústaðir hafa gefið út skráð skuldabréf beri félaginu að styðjast við IAS. IAS 40 staðallinn heimili fyrirtækjum að velja á milli gangvirðis- eða kostnaðarmats og Félagsbústaðir hafi valið fyrri matsaðferðina. Þá eigi IPSAS staðlarnir ekki við um hlutafélög.