Fyrr í mánuðinum var greint frá því að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi sent innviðaráðuneytinu bréf og tjáð því að stofnunin teldi ekki forsendur til að aðhafast vegna reikningsskila Reykjavíkurborgar, nánar tiltekið hjá dótturfélaginu Félagsbústöðum vegna matshækkana á félagslegu húsnæði.

Erlendur Durante, lögmaður hjá ESA, sagði í samtali við Viðskiptablaðið á dögunum að bréfið til innviðaráðuneytisins hafi verið sent í kjölfar árlegs pakkafundar með íslenskum stjórnvöldum í sumar þar sem fundað var um mörg útistandandi mál. Staðlað sé hjá ESA að senda bréf að loknum fundarhöldum og þar hafi stofnunin gert grein fyrir því að hún teldi að málið yrði sett í lokunarferli líkt og gert var.

Málinu ekki formlega lokið

Erlendur segir þó að málinu sé ekki formlega lokið hjá ESA en er vissulega komið í lokunarferli. Teymi ESA sem heldur utan um málið sendi forlokunarbréf (e. pre-closure letter) til aðilans sem lagði í fyrra fram kvörtun vegna reikningsskila borgarinnar og gaf honum kost á að bregðast við frummati eftirlitsstofnunnarinnar.

ESA barst svar frá umkvörtunaraðilanum, sem er ónafngreindur, fyrr í mánuðinum og er nú að leggja mat á röksemdarfærslu hans.

Hvað varðar næstu skref þá segir Erlendur að teymið (e. case handlers), sem heldur utan um málið, mun annað hvort leggja til að málinu verði lokað eða skoða aðra anga þess. Leggi teymið til að málinu verði lokað, þá hefst annað ferli innan ESA þar sem lögfræðideild stofnunarinnar fer yfir röksemdarfærsluna og að lokum fellur það undir stjórn ESA College að samþykkja hana. Stjórnin hefur þá tækifæri til að kynna sér hvort ástæða sé til að halda málinu opnu.

Erlendur gat ekki svarað fyrir um nákvæma tímalínu, þar sem framvinda ferilsins velti á viðbrögðum annarra deilda innan stofnunarinnar. Teymið hans muni leggja fram tillögu um næstu skref á komandi vikum. Ekkert verði þó gert opinbert fyrr en endanleg ákvörðun stjórnarinnar liggur fyrir.

Neita að afhenda bréfið

Viðskipablaðið óskaði eftir afriti af forlokunarbréfi ESA fyrir viku en barst í dag höfnun frá eftirlitsstofnuninni.

Í svari ESA segir að skjalið sé undanþegið reglum stofnunarinnar um almennan aðgang. Ákvæði reglnanna kveði á um að eftirlitinu beri að hafna beiðnum um aðgang að skjölum sem eigi við mál þar sem lokaákvörðun liggi ekki fyrir og ef birting skjalsins myndi „grafa verulega undan“ ákvörðunarferli eftirlitsins.

Ákvæðið nái þó ekki utan um efni sem á brýnt erindi við almenning, sem eftirlitið telur að eigi ekki við í þessu tilfelli.

ESA segir að til þess að það geti framfylgt hlítni við EES-samninginn á Evrópska efnahagssvæðinu verði eftirlitið að tryggja að það geti átt í opnum samskiptum við ESS-ríki um viðkvæm málefni.

„Auk þess telur eftirlitið að ekki sé hægt að afmá skjalið að hluta þar sem það efni sem yrði afmáð yrði svo víðtækt að það myndi gera eftirstandandi upplýsingarnar gagnslausar.“