Við sameiningu ráðgjafafyrirtækisins Aton og auglýsingastofunnar Jónsson & Le’macks undir nafninu Aton.JL hefur Ingvar Sverrisson tekið við framkvæmdastjórn sameinaðs fyrirækis.

„Við höfum greint á markaðnum ákveðna þörf þar sem samskipti og samtal fyrirtækja, stofnana og félagssamtaka við almenning og markhópa hefur verið að breytast, og aukast í báðar áttir,“ segir Ingvar.

„Við viljum því hjálpa þeim að móta sér stefnu í þeim og sýn til lengri tíma þar sem unnið er samkvæmt því sem heitir á ensku „stakeholder management“, eða utanumhaldi og greiningu á hagaðilum. Þessir aðilar eru oft að gera frábæra hluti en ekki alltaf náð að miðla því nógu vel til almennings og lenda því oft í krísum sem við viljum hjálpa þeim að komast hjá.“

Ingvar hefur langa reynslu úr ráðgjafar-, markaðs- og samskiptamálum, en einnig var hann um tíma aðstoðarmaður ráðherra og síðar stofnaði hann Aton. Þar áður var hann meðal annars varaborgarfulltrúi.

„Ég sá fljótt að ég hafði engan áhuga á að vera í pólitísku þrasi við hinn og þennan heldur vildi bara vinna að góðum málum svo ég hætti í stjórnmálum. Ég hef alltaf verið svona félagsmálatröll og alinn upp í íþróttahreyfingunni og í félagsmiðstöðvum svo ég hafði mestan áhuga að vinna að þeim málum og var því um tíma varaformaður ÍTR,“ segir Ingvar sem upp úr því tók að sér formennsku Íþróttabandalags Reykjavíkur.

„Það má að mörgu leyti líkja þessu bandalagi allra íþróttafélaganna í Reykjavík við héraðssambönd úti á landi, en þetta er hörkubatterí sem ég hef haft mjög gaman og mikið gagn af því að leiða. Við útdeilum öllum tímum í íþróttahúsum borgarinnar, og reynum að tryggja jafna kynjaskiptingu og þess háttar auk þess að vera með viðburði. Við eigum og rekum Reykjavíkurmaraþon, Laugavegshlaupið og Miðnæturhlaupið.“

Ingvar er í sambúð með Hólmfríði Óskarsdóttur flugfreyju og eiga þau saman þrjú börn, 24, 18 og 14 ára, en frítíma sínum ver hann á skíðum, fótbolta og golfi. „Ég byrjaði í golfi í seinni tíð og svo loks þegar maður er að verða góður var farið í að sameina fyrirtæki og hafa þá minni tíma. Ég spila alltaf á þriðjudögum með mínum gamla vinahópi sem ég held mikilli tryggð við, ofan úr Breiðholti,“ segir Ingvar sem segist nú ekki vera þekktur þrátt fyrir að hafa komið víða við.

„Ég er nú ekki þekktur fyrir neitt annað en að vera stóri bróðir hans Sveppa. Þú getur rétt ímyndað þér húmorinn á milli okkar, sem getur verið léttgrillaður stundum, sérstaklega þegar við sitjum í mat hjá mömmu og pabba, því einhvers staðar hefur hann þetta frá.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .