Icelandair lýsir í tilkynningu sem yfir vonbrigðum með að Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafi boðað til verkfallsaðgerða í formi yfirvinnubanns frá 24. júní n.k., „þrátt fyrir að Icelandair hafi boðið FÍA sambærilegar launahækkanir og aðrir í samfélaginu hafa samið um að undanförnu, þar á meðal aðrir starfshópar Icelandair," segir í tilkynningunni.

Flugstjórar Icelandair á reynsluflugi í nýuppgerðum stjórnklefa Boeing 757 vél félagsins út af Reykjanesi.
Flugstjórar Icelandair á reynsluflugi í nýuppgerðum stjórnklefa Boeing 757 vél félagsins út af Reykjanesi.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Á mbl.is segir að yfirgnæfandi meirihluti flugmanna hjá Icelandair hafi samþykkt að boða til yfirvinnubanns. 81% atkvæðisbærra skiluðu atkvæði og var verkfallsboðun samþykkt með meirihluta atkvæða eða 99% samkvæmt mbl.is.

„Nú er háannatími í flugi og ferðaþjónustu og greinin er mjög viðkvæm fyrir allri umræðu um yfirvofandi röskun fyrir farþega og ferðamenn vegna verkfallsaðgerða. Icelandair vonast til þess að samningar náist í yfirstandandi viðræðum og ekki komi til truflana á flugi félagsins," segir í tilkynningu frá Icelandair.