Samkeppniseftirlitið hefur fallist á beiðni Festi um að hefja sáttaviðræður um möguleg skilyrði vegna kaupa Festi á öllu hlutafé Lyfju. Í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar kemur fram að gert er ráð fyrir að viðræður hefjist í þessari viku.

Líkt og Festi tilkynnti um miðjan mars þá var niðurstaða frummats Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum viðskiptanna að samruninn krefjist að öllu óbreyttu íhlutunar af hálfu eftirlitsins. Festi óskaði í kjölfarið eftir formlegum sáttaviðræðum um möguleg skilyrði vegna kaupanna.

Tilkynnt var um í mars 2023 að Festi hefði náð samkomulagi um helstu skilmála vegna fyrirhugaðra kaupa á Lyfju. Kaupsamningurinn, sem var undirritaður í júlí 2023, felur í sér að kaupverðið verði greitt með 6,0 milljörðum króna í handbæru fé ásamt afhendingu á 10 milljónum hluta, eða um 3% hlut, í Festi.